Becromal fær áminningu

Frá sýnatöku í Eyjafirði við verksmiðju Becromal.
Frá sýnatöku í Eyjafirði við verksmiðju Becromal.

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að veita Becromal, sem rekur aflþynnuverksmiðju í Eyjafirði, áminningu fyrir að brjóta gegn starfsleyfi sínu. 

Er ástæðan sú, að samfelld vöktun með sjálfvirkum greiningarbúnaði á styrk fosfórs sé ekki til staðar eins og krafist sé í starfsleyfinu.

Enn fremur gerir Umhverfisstofnun kröfu um að úrbætur verði gerðar hvað varðar samfellda vöktun á styrk fosfór og að þeim verði lokið fyrir 1. júní 2011. Þangað til framangreindur búnaður kemst í gagnið skal handvirkum mælingum á styrk fosfórs haldið áfram.

Loks gerir stofnunin ráð fyrir að fara í auka eftirlit eftir 1. júní 2011 til að ganga úr skugga um að úrbótum sé lokið.

Umhverfisstofnun segir, að í kjölfar þessa máls sé nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á viðbrögðum við því þegar fyrirtæki brjóta gegn ákvæðum starfsleyfa. Stofnunin þurfi heimildir til að beita stjórnsýsluviðurlögum, s.s. stjórnvaldssektum, þegar fyrirtæki hefur brotið gegn ákvæðum starfsleyfis en bætir síðar úr eða þegar ekki er unnt að bæta úr.

Núverandi regluverk miði að því að knýja fram úrbætur og virki vel til þess en engin ákvæði séu um stjórnsýsluviðurlög eins og þekkist í öðrum málaflokkum sem séu háðir opinberu eftirliti.

Segist stofnunin telja mikilvægt að hafa úrræði til þess að beita slíkum viðurlögum í þeim tilvikum þar sem upp kemst um brot á starfsleyfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert