„Erum á réttri leið“

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunarinnar.
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunarinnar. mbl.is/Sverrir

„Þessi stofnmæling er ákveðin staðfesting á því að við erum á réttri leið og að þessar aðgerðir sem við lögðum til, og stjórnvöld efndu til og hafa verið að framfylgja varðandi aflaregluna, hafa verið að skila tilætluðum árangri,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunarinnar. 

Stofnvísitala þorsks hefur hækkað fjórða árið í röð og er ástæðan sú að æ meira hefur fengist af stórum þorski.  

Varðandi það hvort kvótinn verði aukinn segir Jóhann að það muni ekki liggja fyrir fyrr en Hafró muni ljúka sinni úttekt í maí/júní.

Fiskurinn fær að vaxa

„Við erum að sjá að þorskstofninn er áfram að styrkjast í kjölfar tillagna Hafrannsóknarstofnunar sem farið hefur verið eftir sl. tvö, þrjú ár. Þetta er að leiða til mun betri nýtingar á árgöngunum en segja má að hafi stefnt í 2007, þegar fyrst var dregið verulega úr þessari sókn,“ segir Jóhann.

Þetta sjáist best á því að hlutfall stærri þorsks hafi hækkað ár frá ári. Fiskurinn fái að vaxa áður en hann sé veiddur, sem sé grundvallaratriði.

„Þetta er í samræmi við það sem sjómenn eru að tala um. Þeir verða varir við meiri fiskgengd,“ segir hann.

Jóhann bendir hins vegar á að árgangar þorsks á milli 2001 og 2007 hafi verið frekar lélegir, sem hafi verið ávísun á minnkandi afla í þorski á komandi árum.

Árin 2008 og 2009 hafi komið tveir meðalsterkir árgangar, og það hafi fengist staðfest í vorrallinu. Hins vegar hafi 2010 árgangurinn, sem nú hafi verið mældur í fyrsta skipti með nokkuð áreiðanlegum hætti, verið slakur.

Jóhann segir að það sé eitthvað sem menn verði að gera ráð fyrir, enda áraskipti á styrk árganganna.

„Þegar það var dregið verulega fyrst úr aflanum 2007 þá gekk sú aðgerð út á það að fá stærri hrygningarstofn og sérstaklega meiri aldursbreidd,  hærra hlutfall af eldri fiski í hrygningarstofninn, til þess að auka líkur á betra klaki,“ segir Jóhann. Menn séu að sjá þessa aukningu í eldri fiski.

„Við erum að leyfa fiskinum að taka út vöxt. Við erum að fá betri nýtingu árganganna en ella hefði verið, það er engin spurning. Við erum líka að fá betri aldursbreidd í stofninn, sem á að auka líkur á betri nýliðun til langs tíma litið.“

Á réttri leið

Haldi þetta áfram með þessum hætti, þá fari verulega að rætast úr. Menn séu auðvitað að sjá mjög góða aukningu í heildarstofnvísitölunni.

„Segja má að það sé vísbending um það að þegar við ljúkum okkar vinnu í vor, að þá muni það leiða til þess að stofnmatið gefi tilefni til heldur aukinna aflaheimilda á næsta ári. Það liggur hins vegar ekki fyrir fyrr en við verðum búnir að  ljúka okkar úttekt núna í maí/júní.“

Þá segir Jóhann að það sé ekki síður mikilvægt og ánægjulegt að meðalþyngdirnar séu að vaxa og lagast verulega. Jóhann bendir á að loðnan hafi verið að braggast mikið á liðnu árum og sé orðin stærri hlutdeild í fæðu þorsksins.

„Þetta festir okkur í þeirri trú að við séum á réttri leið,“ segir Jóhann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert