Jan Kees de Jager, fjármálaráðherra Hollands, segir að hægt væri að fá yfir milljarð evra, 164 milljarða króna, ef eignir og jarðnæði Landsbankans væri selt. Þetta myndi fara langt með að borga skuldir Íslendinga við Hollendinga vegna Icesave.
Fram kemur á vefnum dutchnews.nl, að þetta hafi ráðherrann sagt við sjónvarpsstöðina Nos.
Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar gamla Landsbankans, segir að bankinn hafi haft útibú í Amsterdam og hugsanlegt sé að eitthvað af útistandandi lánum þess séu veðtryggð í félögum eða landi í Hollandi.
„Hann hlýtur eiginlega að vera að vísa til lánasafns útbús Landsbankans í Amsterdam. Þetta er náttúrulega útibú sem er hluti af móðurbankanum og Hollendingar geta náttúrulega ekki tekið það til sín á einn né annan hátt. Þetta er bara eign félagsins,“ segir Páll.
Varðandi þá upphæð sem hollenski fjármálaráðherrann nefnir, segist Páll ekkert geta sagt um hugsanlegt virði einstakra lánasafna bankans.