„Þetta er mjög óvenjulegt. Þetta hefur að líkindum ekki gerst síðan 1930, eða þar um bil. Það voru margir án atvinnu á árunum frá 1993 til 1995 en þá fór meðaltalsatvinnuleysið hins vegar aldrei yfir 5%.“
Þetta segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, í Morgunblaðinu í dag, aðspurður hvort óvenjulegt sé að svo margir séu án vinnu í jafn langan tíma.
Fram kemur í nýjum tölum stofnunarinnar að atvinnuleysi í mars sl. hafi verið 8,6% að meðaltali, borið saman við 8,9% atvinnuleysi í mars 2009. Hefur atvinnuleysið minnst farið í 7,1% á þessu tímabili en það dró úr því sumrin 2009 og 2010. Má reikna með sömu þróun í sumar.
„Þetta er auðvitað óvenjulangt skeið,“ segir Gissur og víkur að andlega þættinum. „Líðan fólks sem er án atvinnu verður auðvitað því daprari eftir því sem mánuðirnir og árin líða. Á hitt ber að líta að fjöldi fólks hefur fengið vinnu eftir að hafa misst vinnuna í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Margir sitja þó eftir. Það hlýtur að vera erfið lífsreynsla að ætla sér að reyna að lifa af atvinnuleysisbótum svo árum skiptir.“