Snögg sinnaskipti

Vantrauststillagan var felld með 32 atkvæðum gegn 30 en einn …
Vantrauststillagan var felld með 32 atkvæðum gegn 30 en einn sat hjá. mbl.is/Kristinn

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði í kvöldfréttum Sjónvarps að afstaða Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns flokksins, hefðu valdið vonbrigðum og komið verulega á óvart.

Ásmundur Einar greiddi atkvæði með vantrauststillögu, sem sjálfstæðismenn lögðu fram. Það gerðu einnig Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir, sem nýlega sögðu sig úr þingflokki Vinstri grænna.

Steingrímur sagði, að það hefði ekki komið honum á óvart, að Atli og Lilja gerðu það sem þeim sýndist, það hefðu þau lengi gert. Hann hefði hins vegar orði  fyrir vonbrigðum með að Ásmundur Einar Daðason skyldi styðja tillöguna. Á þingflokksfundi í hádeginu í dag hefði Ásmundur Einar ekki látið neitt uppi um fyrirætlanir sínar en eftir kvöldmat lagði hann til að stjórnin yrði felld.

„Ég hef aldrei áður á minni ævi upplifað jafn snögg sinnaskipti stjórnarþingmanns í svo mikilvægu máli," sagði Steingrímur, en hann bætti við að þessi ríkisstjórn ætti mörg líf eftir.  

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði við Sjónvarpið að atkvæði Ásmundar Einars hefði komið á óvart og staðan væri því ekki alveg óbreytt eftir daginn. 

Þá sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, að í ljós hefði komið að það hafi verið tímabært og nauðsynlegt að framkalla þessa mælingu á stuðningi við ríkisstjórnina. Nú væri ljóst, að stjórnarmeirihlutinn hangi á einum manni.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að þótt meirihlutinn væri vissulega naumur væri hann nægur og stjórnin hefði oft farið í gegn með stórmál þar sem meirihlutinn var knappur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert