Stofnvísitala þorsks hækkar fjórða árið í röð og er ástæðan sú að æ meira hefur fengist af stórum þorski. Fyrsta mat á 2010 árgangi þorsks hér við land bendir til að hann sé slakur en árgangarnir frá 2008 og 2009 mældust hins vegar meðalstórir.
Um er að ræða niðurstöður úr svonefndu vorralli, sem fór fram í 27. sinn í mars. Í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun segir, að yngstu aldurshópar þorsks (1-3 ára) mældust undir meðalþyngd eins og undanfarin 6-7 ár.
Meðalþyngd eftir aldri hafi hins vegar farið hækkandi hjá 4-9 ára þorski undanfarin tvö ár og sé nú um og yfir meðaltali áranna 1985-2010.
Gott ástand þorsksins sé í samræmi við það að meira var af loðnu í þorskmögum en undanfarin ár og var loðna langmikilvægasta bráð þorsksins eins og títt er á þessum árstíma.
Stofnvísitala ýsu hefur farið lækkandi undanfarin ár og er nú einungis rúmlega fjórðungur af meðaltali áranna 2003-2007 þegar hún var í hámarki. Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til að allir ýsuárgangar eftir 2007 séu lélegir.
Vísitala lúðu í vorralli hrundi á árunum 1986-1990 og hefur haldist lág síðan. Hafrannsóknastofnun segir, að aldrei hafi fengist eins lítið af lúðu í vorralli og síðustu tvö ár og stofnvísitalan nú sé um 20 sinnum lægri en árin 1985-1986.
Vísitala gullkarfa mældist há líkt og verið hefur frá árinu 2003 og að venju fékkst mest af karfanum djúpt út af Faxaflóa og Breiðafirði. Lítið fékkst hins vegar af smákarfa undir 30 cm.
Stofnvísitala ufsa var lág líkt og undanfarin fjögur ár og er nú svipuð og árin 1996-2003. Meira fékkst af ufsa á bilinu 35-50 cm.
Hafrannsóknastofnun segir, að um sé að ræða bráðabirgðaniðurstöður en endanlegt stofnmat verði kynnt í júní.