Styður ekki lengur ríkisstjórnina

Ásmundur Einar Daðason, lengst til hægri á myndinni, sagðist í …
Ásmundur Einar Daðason, lengst til hægri á myndinni, sagðist í kvöld ekki lengur styðja ríkisstjórnina. mbl.is/Kristinn

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, þingmaður Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar-græns fram­boðs, lýsti því yfir á Alþingi í kvöld, að hann styddi ekki leng­ur rík­is­stjórn sem héldi áfram um­sókn­ar­ferl­inu vegna Evr­ópu­sam­bands­ins.

„Niðurstaða mín er því sú, að ekki sé skyn­sam­legt að halda áfram þessu Evr­ópu­sam­bands­ferli og ég styð ekki leng­ur rík­is­stjórn sem held­ur þessu ferli áfram af jafn­mikl­um þunga og raun ber vitni," sagði Ásmund­ur Ein­ar í umræðum um van­traust á rík­is­stjórn­ina.

Hann rifjaði upp, að hann hefði setið hjá í at­kvæðagreiðslu um fjár­laga­frum­varpið og lýst því yfir, að stuðning­ur sinn við rík­is­stjórn­ina væri skil­yrt­ur.  Snúa þyrfti af þeirri braut í Evr­ópu­mál­um, sem rík­is­stjórn­in væri á og sem væri gróft brot gegn stefnu VG.

Þá sagði Ásmund­ur Ein­ar að Ices­a­ve-samn­ing­arn­ir væru bein­tengd­ir við Evr­ópu­sam­bands­um­sókn­ina. Hann vísaði til orða Atla Gísla­son­ar fyrr í umræðunni í dag, um að þetta væri full­veld­is­bar­átta og því gæti hann ekki annað en stutt van­traust­stil­lög­una.

„Þetta snýst um að vega og meta og velta því fyr­ir sér hvort nú sé komið yfir ein­hverja línu sem dreg­in hef­ur verið. Ég hef haft skil­yrt­an stuðning við þessa rík­is­stjórn. Er betra að vera áfram inn­an stjórn­ar­liðsins og styðja þessa rík­is­stjórn eða er betra að stöðva þetta ferli og segja hingað og ekki lengra í þessu máli?" sagði Ásmund­ur Ein­ar. Hann sagði, að Íslend­ing­ar ættu að for­gangsraða upp á nýtt og leggja þessa aðild­ar­um­sókn til hliðar. 

Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sem tók til máls á eft­ir Ásmundi Ein­ari, sagði að síðasti ræðumaður­inn hefði stolið af sér orðinu og þetta væru mik­il tíðindi að hann styddi ekki leng­ur rík­is­stjórn­ina. Það sýndi, að van­traust­stil­lag­an, sem sjálf­stæðis­menn lögðu fram, væri rétt og tíma­bær. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka