Vantrauststillagan felld

Atkvæðagreiðsla um vantrauststillöguna hófst á tíunda tímanum í kvöld.
Atkvæðagreiðsla um vantrauststillöguna hófst á tíunda tímanum í kvöld. mbl.is/Kristinn

Tillaga um að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir var felld á Alþingi í kvöld með 32 atkvæðum gegn 30 en einn þingmaður sat hjá. 

Tillaga um að þing verði rofið fyrir 11. maí og efnt til almennra þingkosninga í framhaldinu var hins vegar felld með 36 atkvæðum gegn 22 en fimm greiddu ekki atkvæði.

Allir þingmenn Samfylkingarinnar, 20 talsins, og 12 þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, greiddu atkvæði gegn fyrri hluta vantrauststillögunnar. Einn þingmaður flokksins, Ásmundur Einar Daðason, greiddi hins vegar atkvæði með tillögunni og það gerðu einnig allir 16 þingmenn Sjálfstæðisflokksins og allir þrír þingmenn Hreyfingarinnar. Sömuleiðis greiddu þingmennirnir tveir, sem sögðu sig úr þingflokki Vinstri grænna nýlega, atkvæði með tillögunni. Það gerðu einnig átta þingmenn Framsóknarflokksins en Guðmundur Steingrímsson sat hjá.

Í atkvæðagreiðslu um síðari hluta tillögunnar, um þingrof og kosningar, greiddu sömuleiðis 20 þingmenn Samfylkingarinnar og 12 þingmenn Vinstri grænna atkvæði gegn tillögunni. Það gerðu einnig þrír þingmenn Framsóknarflokks, þau Guðmundur, Siv Friðleifsdóttir og Eygló Harðardóttir og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.

Með tillögunni greiddu atkvæði 16 þingmenn Sjálfstæðisflokks, 5 þingmenn Framsóknarflokks og Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. 

Hjá sátu Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir, sem eru utan þingflokka,  Ásmundur Einar Daðason, VG, Höskuldur Þórhallsson, Framsóknarflokki og Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert