„Ég er friðarsinni og á móti hernaði í hvaða mynd sem er,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri í tilkynningu sem hann hefur sent frá sér vegna komu þýskra herskipa hingað til lands.
Hyggst Jón ekki taka á móti yfirmönnum af herskipum þýska flotans sem liggja nú við Skarfabakka í Sundahöfn.
„Ég lít ekki svo á að í því felist einhver óvirðing við þetta fólk sem er hér í heimsókn núna. Ég vil einfaldlega ekki tengjast hernaðarbrölti. Það er einlæg skoðun mín að Reykjavík eigi að vera borg friðarins. Íslendingar eiga að sýna það í verki að við erum herlaus þjóð. Við eigum ætíð að tala fyrir friði og mótmæla stríði manna á milli,“ segir Jón í yfirlýsingunni.
Jón lagði í desember til að herflugvélar fái ekki að lenda á Reykjavíkurflugvelli nema þær séu að sinna hjálpar- eða björgunarstarfi.