Bætur vegna embættisveitingar

mbl.is/GSH

Hæstiréttur hefur dæmt íslenska ríkið og Árna M. Mathiesen, fyrrverandi ráðherra, til að greiða umsækjanda um héraðsdómaraembætti hálfa milljón króna í miskabætur.

Staðfesti Hæstiréttur þannig niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því fyrir ári um að Árni og ríkið skyldu greiða Guðmundi Kristjánssyni miskabætur fyrir vegna þess að Þorsteinn Davíðsson var skipaður héraðsdómari á Norðurlandi eystra undir lok ársins 2007. Árni skipaði í embættið sem settur dómsmálaráðherra.

Guðmundur sótti um embætti héraðsdómara haustið 2007 ásamt fjórum öðrum. Dómnefnd taldi, að allir umsækjendurnir væru hæfir. Þrír voru taldir mjög vel hæfir, þar á meðal Guðmundur, og tveir voru taldir hæfir, þar á meðal Þorsteinn.

Guðmundur höfðaði skaðabótamál gegn Árna og ríkinu og krafðist 5 milljóna króna í miskabætur og einnig að viðurkennt yrði að Árni og ríkið væru skaðabótaskyld. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur höfnuðu kröfu um skaðabætur á þeirri forsendu, að ekki lægi fyrir að Guðmundur hefði fengið embættið þótt valið hefði staðið um þá sem taldir voru mjög vel hæfir.

Hæstiréttur segir hins vegar, að þótt Árni hafi ekki látið orð falla til að vega að persónu eða æru Guðmundar verði ekki fram hjá því litið að Árna mátti vera ljóst að þessar gerðir hans gætu að ófyrirsynju bitnað á orðspori Guðmundar og orðið honum þannig að meini. Þrátt fyrir það hafi Árni gengið fram án þess að skeyta nokkuð um þessa augljósu hættu.

Telur Hæstiréttur að því sé fullnægt skilyrðum um að dæma Guðmundi miskabætur.  Héraðsdómur hafði dæmt Árna og ríkið til að greiða Guðmundi 3,5 milljónir króna í bætur en Hæstiréttur lækkaði bæturnar í 500 þúsund.

Fimm dómarar dæmdu í málinu en tveir þeirra, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson, skiluðu séráliti og töldu að sýkna ætti Árna og ríkið af kröfu um miskabætur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert