Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, tókust á um metavött á Alþingi í dag.
Í fyrirspurnartíma í morgun vitnaði Tryggvi Þór til ummæla Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, í umræðum á Alþingi í gær, að samkvæmt varlegustu áætlunum verði farið í framkvæmdir á næstu árum sem muni skila álíka afli og Kárahnjúkavirkjun skilaði.
„Það verður á næstu árum byggð hér ný Kárahnjúkavirkjun," sagði Katrín. Vísaði hún til virkjanaáforma á Norðausturlandi og Suðvesturlandi og sátt ríkti um. „Hér ríkir ekkert framkvæmdastopp."
Tryggvi Þór sagði, að iðnaðarráðherra hefði þarna boðað að beisla eigi í kringum 700 megavött og það væri fjárfesting upp á minnsta kosti 200 milljarða og gríðarlegar framkvæmdir.
„Hvar á að vinna allt þetta afl?" spurði Tryggvi Þór og spurði hvort virkja ætti neðrihluta Þjórsár, ætti að virkja Norðlingaöldum, Gjástykki eða væri verið að undirbúa virkjanir á Torfajökulssvæðinu.
Svandís sagði, að menn hefðu einatt látið svo í þingsal, að vaða þurfi í umdeildar virkjanir til að koma svonefndum hjólum atvinnulífsins af stað. Svo væri ekki og ýmsir kostir væru fyrir hendi án þess að fara þurfi í stríð við þjóðina.
Í þessu samhengi væri verið að ræða um stækkun Hellisheiðarvirkjunar, Hverahlíðavirkjun, Búðarhálsvirkjun, áform um stækkun Reykjanesvirkjunar og síðan væru áform í Þingeyjarsýslum. Þar undir væri þó ekki Gjástykki og ekki heldur virkjanaáform í neðri hluta Þjórsá og Norðlingaölduveita.
Tryggvi Þór sagði, að Svandís hefði talið upp virkjanir sem gæfu um 250 megavatta afl fyrir utan Þeistareykjasvæðið en orkugeta þess væri mjög á reiki. Væntanlega væri því þá orku, sem vantaði upp á 700 megavatta töluna, sem iðnaðarráðherra nefndi, að finna á Torfajökulssvæðinu.
„Það hefur borið við hér í þingsal að menn hafa talað megavöttin upp úr jörðinni og láta eins og þeir viti hvað undir liggur," sagði Svandís.
Hún sagði að Tryggvi Þór hefði engar forsendur til að vita hve
mikil orka lægi þarna undir frekar en nokkur annar. Svandís tók fram, að ekki væri gert ráð fyrir Torfajökulssvæðinu í þessum tölum.