Erfið staða stjórnarinnar

Alþingismenn hlusta á ræður í vantraustsumræðunni.
Alþingismenn hlusta á ræður í vantraustsumræðunni. Kristinn Ingvarsson

Ljóst er að naumur meirihluti ríkisstjórnarinnar eftir brotthvarf Ásmundar Einars Daðasonar úr þingflokki VG getur torveldað starf hennar í ýmsum málum. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir í VG lagði í ræðu sinni í gær mikla áherslu á andstöðu sína við virkjun í efrihluta Þjórsár. Veltu menn því fyrir sér hvort hún væri að minna menn á að nú hefði hún líf stjórnarinnar í hendi sér.

 ,,Ég tel að ríkisstjórnarsamstarfið sé í algjöru uppnámi og allt það sem sagt hefur verið um að tillaga um vantraust væri ótímabær og illa ígrunduð hefur verið hrakið. Það sýna niðurstöður atkvæðagreiðslunnar hér í kvöld," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í kvöld.

 Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði ljóst að varla væri hægt að stjórna með eins atkvæðis meirihluta við þær aðstæður sem nú væru ríkjandi í landinu. „Ég á við hvernig þingmeirihlutinn er samsettur og hvaða málum menn standa frammi fyrir. Það verður að koma í gegn ýmsum stórum ákvörðunum. En þá verður reyndar að hafa í huga að þessi stjórn hefur þraukað á því að fara ekki í gegn með mál sem hefði þurft að ljúka, ég nefni sem dæmi atvinnumálin," sagði Sigmundur Davíð. „Ég sé hins vegar ekki að þau geti hangið saman í tvö ár í viðbót á aðgerðaleysinu."

 Össur Skarphéðinsson sagði ljóst að í ríkisstjórn með eins atkvæðis þingmeirihluta væri hver maður mikilvægur. „Sagan kennir okkur hins vegar að ríkisstjórnir með mjög þröngan meirihluta hafa orðið farsælar og þaulsetnar, eins og Viðreisnarstjórnin 1959-1971 sem studdist við eins manns meirihluta," sagði Össur. „Ég sé nú fram á að þessi ríkisstjórn verði langlífari en ég hugði í fyrstu."

 Össur sagði athyglisvert hve miklu fleiri hefðu verið á móti þingrofi og kosningum en hefðu verið á móti vantraustinu. Hart væri deilt um ESB en mannabreytingar sem orðið hefðu í VG að undanförnu myndu ekki hafa nein áhrif á gang ESB-viðræðnanna og stuðning við þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka