Aðilar vinnumarkaðarins funda nú með fulltrúum stjórnvalda í húsi ríkissáttasemjara, en fundurinn er nýhafinn.
„Ef þetta gengur þá halda menn áfram þar til yfir lýkur,“ sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is, rétt áður en fundurinn hófst.
Fram hefur komið að aðilar vinnumarkaðarins muni reyna til þrautar í dag að ná saman um kjarasamning til þriggja ára en gangur komst á ný í kjaraviðræðurnar í gærmorgun eftir útspil frá ríkisstjórninni.
Forsvarsmenn SA segja að ríkisstjórnin hafi það í höndum sér hvort gerðir verða kjarasamningar til lengri eða skemmri tíma.
Vonast er til að samningar liggi fyrir á morgun.