Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, lofar framgöngu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í samtali við Bloomberg-fréttastofuna í dag. Forsetinn hafi gerst besti talsmaður Íslands eftir hrunið.
Viðtalið er hluti af grein um ræðu forsetans í Kaupmannahöfn en við það tilefni varði hann stuðning sinn við íslensku útrásina.
Ummælin vekja athygli, ekki síst í ljósi fyrri ummæla Hannesar Hólmsteins um Ólaf Ragnar Grímsson.
Orðrétt segir Hannes Hólmsteinn í samtali við Bloomberg:
„Hann tók vissulega of djúpt í árinni í stuðningi sínum við íslenska fjármálamenn. Þeir voru reglulegir gestir á bústað forsetans fyrir hrunið. En síðan áttaði forsetinn sig á því að hann yrði að endurheimta vinsældir sínar og það gerði hann með því að nota mælsku sína til að verða besti talsmaður íslenskra hagsmuna,“ segir Hannes Hólmsteinn.