Innanríkisráðherra hefur lagt fram lagafrumvarp á Alþingi sem gerir ráð fyrir því að lögregluembættum verði fækkað úr 15 í 8.
Fjármálaráðuneytið segir að ný og stærri embætti geti betur sinnt lögbundnum skyldum sínum og náð þeirri hagræðingarkröfu sem gerð hafi verið til þeirra á undanförnum árum.
Samkvæmt frumvarpinu fara eftirfarandi lögreglustjórar með lögreglustjórn:
1. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
2. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum
3. Lögreglustjórinn á Vesturlandi
4. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum
5. Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra
6. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra
7. Lögreglustjórinn á Austurlandi
8. Lögreglustjórinn á Suðurlandi
Ekki er gert ráð fyrir að mörk lögregluumdæmanna verði lögbundin heldur verði þau ákvörðuð í reglugerð að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þetta sé gert þar sem fjöldi sveitarfélaga hafi verið að taka breytingum og megi búast við að svo verði áfram.
Í frumvarpi til lögreglulaga, sem var lagt fram á Alþingi vorið 2010, var lagt til að lögregluembættum fækki í 6.
Í athugasemdum með nýja frumvarpinu segir, að dregið hafi verið úr þeirri áherslu sem var á að færa verkefni frá ríkislögreglustjóra til einstakra lögreglustjóra. Í tillögunni nú felist, að fallið hafi verið frá því að sameina alla lögregluna á Íslandi í eina stofnun en markmiðið sé þó að lögreglan vinni í auknum mæli saman sem ein heild.
Gert er ráð fyrir að ný sameinuð embætti taki til starfa 1. janúar 2012.