Miklar breytingar á lífríkinu

Ertuygla.
Ertuygla.

Náttúrufræðistofnun segir, að um þessar mundir verði Íslendingar vitni að umtalsverðum breytingum á lífríki Íslands. Þar beri helst að geta landnáms nýrra fuglategunda, framvindu gróðurs og breytinga á gróðurfari og lífríki hafsins umhverfis Ísland.

Stofnunin segir, að talið sé að hlýnandi loftslag eigi ríkan þátt í því ásamt ýmsum breytingum sem hafi orðið á högum og athöfnum okkar mannanna. Breytingar hafi orðið á búskaparháttum og landnýtingu með minnkandi beitarálagi búsmala því samfara. Þannig hafi minnkandi sauðfjárbeit haft mikil keðjuverkandi áhrif á lífríkið almennt samfara hlýnandi loftslagi.

„Varla verður um það deilt að margar breytinganna séu spennandi og jafnvel ánægjulegar, eins og sjálfgræðsla á örfoka landi og vísar að birkiskógum sem taka að potast upp úr sverði. Deilt er um aðrar breytingar, einkum þar sem framandi plöntutegundir eiga í hlut og ná undirtökum fyrir tilstuðlan okkar manna. En einnig verða breytingar sem flestir eru sammála um að landið mætti vel án vera," segir á vef Náttúrufræðistofnunar.

Þar eru m.a. nefnd dæmi um ýmis smádýr, sem verða æ algengari hér á landi. Þar á meðal er ertuygla, sem hefur sótt í sig veðrið á undanförnum árum. Hún er  sögð átvagl mikið og sé matseðillinn fjölbreyttur. 

Þá sé skógbursti, sem áður var fágætt fiðrildi í syðstu sveitum landsins, í hraðri fjölgun. Í sumarbústaðalöndum hafi skógburstinn uppgötvað gnótt fæðu og sé sums staðar farinn að skaða ræktaðan gróður, t.d. í Grímsnesi og nágrannasveitum. 

Vefur Náttúrufræðistofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert