Ástandið hjá fátæku fólki er ekki að lagast, nema síður sé, ef miðað er við þann fjölda sem leitar eftir mataraðstoð hjá hjálparsamtökum. Þannig hefur barnmörgum fjölskyldum, eldri borgurum og öryrkjum fjölgað í hópi þeirra sem leita aðstoðar hjá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur.
Í gær úthlutuðu Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands matarpökkun. Útlit var fyrir það að svipaður fjöldi leitaði sér aðstoðar í Reykjavík og undanfarna miðvikudaga, það er um eða yfir 500 manns hjá hvoru þessara stóru hjálparsamtaka. Ef 2-3 eru í hverri fjölskyldu að meðaltali nýtist aðstoðin 1.000 til 1.500 einstaklingum á hvorum stað. Ekki er hægt að leggja saman fjöldann því vitað er að hluti fólksins fer á báða staðina.
„Nei, það finnst okkur ekki,“ segir Ragnhildur Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, þegar hún er spurð að því hvort ástandið sé ekkert að batna. Hún segir þó að Pólverjum sem leita aðstoðar hafi fækkað. Hins vegar hafi erlendum fjölskyldum fjölgað og öryrkjum og eldri borgurum einnig.
„Það kreppir að í öllum hópum en aðstæður innan þeirra eru afar mismunandi. Hingað koma afar slæm mál,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands. „Við viljum öll að fólki líði vel og ömurlegt að vita af stórum hópi sem er heima við slæm kjör og leitar sér ekki aðstoðar,“ segir Ásgerður.