„Þetta er í fyrsta skipti sem ég geri þetta,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands.
Hún sendi ákall um hjálp frá öðrum þjóðum í viðtölum við tvö sænska fréttamenn sem hér voru á ferð í lok mars og byrjun apríl. Ásgerður segist enn ekki hafa fengið viðbrögð enda viti hún ekki til þess að greinarnar hafi verið birtar.
„Ég hef tekið á móti fjölda erlenda fréttamanna á undanförnum árum en aldrei talað á þessum nótum. Núna finnst mér ástandið orðið svo slæmt að við þurfum að gera átak til að hjálpa fólkinu sem situr heima,“ segir hún.
Ásgerður segir að Fjölskylduhjálpin kaupi mat fyrir 4-5 milljónir á mánuði og njóti við að aðstoðar einstaklinga og fyrirtækja. Samtökin eru með öflugt útibú í Reykjanesbæ. Þau hafa nú misst húsnæði sitt á Akureyri en leita að nýju.