Útgjöld til heilbrigðismála lækka á ný

Heildarútgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu hafa vaxið verulega síðasta aldarfjórðung eða úr ríflega 6,3% af landsframleiðslu í upphafi níunda áratugarins í ríflega 9,3% á síðasta ári. Útgjöldin hafa hins vegar lækkað frá árinu 2003 þegar þau námu  10,4% af landsframleiðslu.

Fram kemur í nýjum Hagtíðindum Hagstofunnar, að þetta hlutfall samsvari nú 143,5 milljörðum króna á verðlagi síðasta árs.

Hagstofan segir, að af heildarútgjöldum til heilbrigðismála greiði hið opinbera 115,6 milljarða króna og einkaaðilar 27,9 milljarða. Á þremur áratugum hafi útgjöld hins opinbera til þessa málaflokks aukist úr 5,5% af landsframleiðslu í 7,5%. Á sama tíma hafi útgjöld heimilanna ríflega tvöfaldast, úr 0,8% af landsframleiðslu í 1,8%.

Hlutur heimilanna hefur aukist verulega frá 1980 eða úr 12,8% af heildarútgjöldum í 19,5% árið 2010. Hámarki náði hlutur þeirra árið 1998 þegar hann nam 19,6% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála.

Hagstofan segir, að í byrjun níunda áratugarins hafi heilbrigðisútgjöld verið um 52 milljarðar króna á verðlagi 2010 en ríflega 143 milljarðar árið 2010. Heilbrigðisþjónustan hafi því nærri þrefaldast að magni  á þessu tímabili.

Heilbrigðisútgjöld á mann voru hins vegar um 451 þúsund krónur árið 2010 en 226,5 þúsund krónur í byrjun níunda áratugarins á verðlagi 2010 og hafa því nærri tvöfaldast síðustu þrjá áratugi. Á árunum 2002-2009 stóðu þau nánast í stað og voru um 470-485 þúsund krónur á mann á sama verðlagi. Árið 2010 lækkuðu þau í 451 þúsund krónur á mann, einnig á sama verðlagi. 

Heildarútgjöld til heilbrigðismála í ríkjum OECD voru að meðaltali 9% af vergri landsframleiðslu ríkjanna árið 2008 en mikill munur er á því hlutfalli milli einstakra ríkja.

Í Bandaríkjunum var hlutfallið t.d. 16% árið 2008 en 5,9% í Mexíkó. Hér á landi voru heildarútgjöld til heilbrigðismála 9,1% af vergri landsframleiðslu árið 2008, 9,7% árið 2009 og 9,3% árið 2010. Svíar vörðu 9,4% af vergri landsframleiðslu sinni til heilbrigðismála árið 2008, Norðmenn 8,5%, Frakkar 11,2% og Svisslendingar 10,7%. Á þennan mælikvarða voru Íslendingar í 14.–15. sæti OECD-ríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert