Skýrast mun upp úr hádegi hvort samið verður á vinnumarkaði til þriggja ára eða til sex mánaða. Verði skammtímasamningur ofaná fá launþegar 50 þúsund króna eingreiðslu 1. maí og væntanlega eitthvað til viðbótar í sumar eða haust.
Fulltrúar ASÍ og SA sitja þessa stundina á fundi með fulltrúum ríkisstjórnarinnar en það ræðst af svörum stjórnvalda hvort hægt verður að skrifa undir kjarasamning til þriggja ára síðdegis í dag. Forystumenn samtakanna á vinnumarkaði hafa lýst því yfir að niðurstaðan eigi að liggja fyrir klukkan 17:15 í dag.
Eftir hádegi munu samninganefndir ASÍ og SA funda sitt í hvoru lagi, fara yfir stöðuna og leggja mat á hvort svör ríkisstjórnarinnar duga til að ganga frá langtímasamningi. Ef þau duga ekki til verður gengið frá skammtímasamningi þar sem kveðið verður á um eingreiðslur til launþega og næstu sex mánuðir notaðir til að reyna að fá ríkisstjórnina til að koma til móts við kröfur SA og ASÍ um aðgerðir í málum sem útaf standa s.s. í atvinnumálum og áherslu SA á málamiðlun í sjávarútvegsmálum.
Verði aðeins samið til sex mánaða verða öll önnur kjaramál sem þegar hefur samist um á vinnumarkaði, s.s. sérmál einstakra aðildarsambanda og félaga og sameiginleg mál sem samkomulag er um milli SA og ASÍ, látin bíða þar til tekst að ganga frá langtímasamningum síðar á árinu.