Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram breytingartillögu á Alþingi við þingsályktunartillögu um að kosin verði rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003.
Leggja sjálfstæðismenn til að nefndinni verði einnig falið að rannsaka aðdraganda og ástæður þess að íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um að standa að samþykktum NATO um hernaðaraðgerðir í Líbíu nú í vor.
Einkum verði athugað hvernig staðið var að ákvörðuninni innan ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar og lagt mat á hvort um lögbundið samráð við Alþingi hafi verið að ræða.
Bjarni Benediktsson er fyrsti flutningsmaður breytingartillögunnar. Upphaflega tillagan um rannsóknarnefndina var lögð fram af Árna Þór Sigurðssyni, þingmanni Vinstri-grænna, og hópi þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki.