Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag, að ekki gæti gengið til lengdar, að öll mál verði að ágreiningi innan þings sem utan þegar menn stæðu í þeim sporum, sem íslensk þjóð er í um þessar mundir.
Sagðist Ólína vekja máls á þessu í kjölfar umræðunnar sem fór fram á miðvikudag um vantrauststillögu sjálfstæðismanna.
„Ég lít svo á, að Alþingi Íslendinga hafi sett niður og þar er engum um að kenna nema þinginu sjálfu," sagði Ólína.
Hún minnti á að í rannsóknarskýrslu Alþingis hefði verið sett alvarlega ofan í við íslenska stjórnmálaumræðu og fulltrúar allra flokka hefðu tekið undir meginniðurstöður skýrslunnar.
Þar hafi verið lögð áhersla á aukna fagmennsku við undirbúning löggjafar og bætta umræðusiði á Alþingi.
„Alþingi hefur veigamiklu hlutverki að gegna, ekki aðeins sem löggjafarvald, fjárveitingarvald og sem eftirlitsaðili. Það hefur forustuhlutverki að gegna í opinberri umræðu. Og mig langar til að biðja alla þingmenn til að líta nú í eigin barm og svara þeirri samviskuspurningu hver fyrir hvort Alþingi hafi yfirleitt verið að rækja þetta hlutverk sitt upp á síðkastið," sagði Ólína.