Fjölmiðlalög samþykkt

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Friðrik Tryggvason

Ný heildarlög um fjölmiðla hafa verið samþykkt á Alþingi. Með setningu þeirra er ætlunin að samræma löggjöf um alla fjölmiðla á landinu, óháð miðlunarformi. Þingmenn minnihluta gagnrýndu það harðlega að ekki skuli tekið á eignarhaldi fjölmiðla og stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hóf umræður um kosninguna og sagði vissulega mörg álitaefni, en setning laganna væri jákvætt skref fyrir starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í menntamálanefnd, segir lögin ekki taka til þeirra meginþátta sem heildarlöggjöf um fjölmiðla þyrfti að taka til - eignarhaldi á fjölmiðlum, og stöðu Ríkisútvarpsins. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði lögin þrengja að starfsumhverfi allra fjölmiðla annarra en Ríkisútvarpsins.

Skúli Helgason, formaður menntamálanefndar, tók stuttlega til máls og nefndi sérstaklega þær bætur sem lögunum er ætlað að gera á starfsumhverfi blaðamanna og einnig stöðu heimildarmanna þeirra. Hann kom ekki inn á gagnrýni minnihlutans um það sem þeir telja upp á vanta.

Eygló Harðardóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í menntamálanefnd, greiddi atkvæði með frumvarpinu og sagði þá sem gagnrýna það gera það af vanþekkingu og fordómum.

Frumvarpið var samþykkt með 30 atkvæðum gegn 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert