Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpu, segir að hljóðprufa Sinfóníunnar fyrr í dag hafi verið lokuð fyrir gagnrýnendum, vegna fyrirmæla frá Artec, fyrirtækinu sem hannar hljómburðinn í Hörpu.
„Þessi hljóðprufa var eingöngu til að þeir [Artec] gætu stillt salinn. Þetta var ekki „performans“, ekki tónleikar og ekki einu sinni æfing, þetta var hljóðprufa fyrir þá,“ segir Steinunn Birna. „Þeir setja þetta sem skilyrði alls staðar sem þeir vinna í heiminum og þetta er ekki fyrsta húsið sem þeir hafa hannað hljómburðinn í.“
Steinunn segir að öllum fjölmiðlum hafi verið vísað burt þegar hljóðprufan hófst, ekki bara gagnrýnendum. Hún kveðst hafa látið Ríkarð Örn Pálsson, tónlistargagnrýnanda, vita af þessari ráðstöfun fyrir nokkru síðan.
„Hljómburður er, eins og allir vita, mjög viðkvæmur og vandmeðfarinn, því það er gífurlega mikilvægt að hann takist vel þegar tónlistahús eru byggð. Hann er kannski ekki tilbúinn í fyrstu hljóðprufu. Þannig að þetta er gert til að fyrirbyggja að það sé fjallað um þeirra [Artec] verk áður en það er fullgert eða að það séu birtar einhverjar hljóðupptökur af þessum hljómburði áður en það er búið að fullvinna hann.“
Hún segir afstöðu fyrirtækisins skiljanlega. „Þetta skilur maður alveg ef maður er fagmaður. Þetta er eins og að biðja myndhöggvara um að sýna styttu áður en það er búið að höggva andlitið í hana. Það er móðgun við þeirra vinnu.“