Megintillögur frumvarps um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða fela í sér að úthlutun á aflaheimildum verður breytt í nýtingarheimildir samkvæmt samningum til afmarkaðs tíma. Hluti þeirra rennur í áföngum til byggða- og leigupotta. Forsætisráðherra segir að þjóðin muni njóta arðs af auðlindinni með gjaldtöku. Varanlegt framsal verður takmarkað.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lagði fram í dag. Samtök atvinnulífsins segja að þetta útspil ekki fela í sér framlag til lausnar málsins. Samtökin „harma að ríkisstjórn Íslands skuli ekki hafa nýtt einstakt tækifæri til að ná nauðsynlegri sátt um málefni sjávarútvegsins.“
SA hafa lagt fram tillögur um viðamiklar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem fela í sér útfærslu á samningaleið í sjávarútvegi. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún muni leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða í næsta mánuði án nokkurs samráðs við hagsmunaaðila. Hins vegar sé unnið að hagfræðilegri úttekt á breytingunum sem verði kynnt hagsmunaaðilum þegar niðurstaða liggi fyrir.
Samtök atvinnulífsins birtu í kvöld minnisblað Jóhönnu Sigurðardóttur.
„Ríkisstjórnin mun leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða fljótlega í næsta mánuði. Markmið laganna er að brjóta upp forgang núverandi kvótahafa að lokuðu kerfi og reisa skorður við að þeir geti fénýtt þá sameign landsmanna sem fiskimiðin eru með því að leigja eða selja öðrum veiðiheimildir á himinháu verði.
Að því er stefnt að skapa sjávarútveginum traust rekstrarskilyrði til lengri tíma, auka þjóðhagkvæmni greinarinnar og treysta atvinnufrelsi og jafnræði innan hennar.
Megintillögur frumvarpsins fela í sér að úthlutun á aflaheimildum verði breytt í nýtingarheimildir samkvæmt samningum til afmarkaðs tíma. Hluti þeirra renni í áföngum til byggða- og leigupotta; þjóðin njóti arðs af auðlindinni með gjaldtöku. Varanlegt framsal verði takmarkað.
Nú er unnið að hagfræðilegri úttekt á tillögunum. Tekur hún til efnahagslegra áhrifa og rekstrarskilyrða í sjávarútvegi. Þess er vænst að úttektin geti legið fyrir innan mánaðar og fari þá til nefndar þingsins sem hefur málið til meðferðar á alþingi.
Stjórnvöld lýsa því yfir að þau munu fara með hagsmunaaðilum yfir þá úttekt þegar hún liggur fyrir og meta með þeim hvort og þá hvaða breytingar eða aðlögun þurfi að gera ef úttektin sýnir að fyrirhugaðar breytingar kvótakerfisins hafi umtalsverð neikvæð áhrif á rekstrarskilyrði greinarinnar í heild sinni, umfram það sem eðlileg gjaldtaka hefur í för með sér."