Hjálparstarf kirkjunnar ætlar frá 1. maí að gera breytingar á mataraðstoð sinni innanlands til að mæta þörf skjólstæðinga betur og draga úr því að fátækt foreldra skapi neikvæða upplifun barna af æsku í fjárþröng.
Frá mánaðamótum verður barnafólki veitt mataraðstoð með inneignarkortum í stað matargjafa í poka. Segir stofnunin, að forritun kortanna stuðli að því að inneign sé varið til nauðsynja.
Eftir sjö mánuði verður verkefnið metið og framtíðarmarkmið mótuð út frá því.
Gamlir sem nýir skjólstæðingar þurfa að koma með öll gögn um tekjur og gjöld til að sækja um í þessu nýja kerfi. Áfram er miðað við að tekjur mínus gjöld verði ekki hærri upphæð en viðmið umboðsmanns skuldara.