Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu Arion Banka um að fyrirtækið Agli ehf. verði tekið til gjaldþrotaskipta vegna erlends láns á þeim grundvelli að slík lán séu ólögmæt. Skuldin fellur hins vegar ekki niður og því ber að endurreikna hana.
Krafa Arion banka er samkvæmt lánssamningi frá 26. febrúar 2007 milli fyrirtækisins og Sparisjóðs Mýrasýslu, en Arion banki tók sparisjóðinn yfir á síðasta ári. Samningurinn var um lán að jafnvirði 25 milljónir kr. Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að það hafi verið myntkörfulán, þ.e. helmingur í svissneskum frönkum og helmingur í japönskum jenum.
Segir að í áskorun sé kröfu lýst og hún sögð nema samtals 78.851.379 kr. Þá sé reiknað skv. sölugengi jens og franka frá 2. september 2010.
Í gjaldþrotabeiðni var krafan sögð nema samtals 64.789.944 kr. en það sé miðað við gengi 10. desember 2010.
Arion banki beindi áskorun til fyrirtækisins um að það lýsti félagið
greiðslufært og að það geti greitt tilgreindar skuldir vid bankann innan
tveggja vikna. Var áskorunin birt forsvarsmanni Agli ehf. 21. október
2010.
Lögmaður félagsins mótmæli í bréfi að bankinn hygðist innheimta kröfur sem dæmdar hafi verið ólögmætar með dómum Hæstaréttar.
Dómari segir að ekki þurfi að hafa frekari orð um að lánið sé gengistryggt í íslenskum krónum.
Í úrskurði héraðsdóms segir að Hæstiréttur hafi talið að lög um vexti og verðtryggingu heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur laganna séu ófrávíkjanlegar og því verði ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki sé stöð fyrir í lögum.
Þá segir að skuldin sé hins vegar ekki fallin brott, hvorki vegna þess að hún teljist ólögmæt né að hún sé ógild af öðrum ástæðum.
Því beri að reikna skuldina á ný í samræmi við þær leiðbeiningar lesnar verði úr fordæmum Hæstaréttar.
Segir að Arion banki hafi skorað á Agli ehf. til að lýsa sig færan um að greiða fjórfalt hærri skuld en hann hafi sýnt fram á fyrir dóminum að hann geti krafið félagið um.
Því sé ekki unnt að fallast á það með Arion banka að ekki þurfi að tilgreina fjárhæð í áskorun skv. gjaldþrotalögum.
Af sjálfu leiði að áskorun um að lýsa sig færan til greiðslu hljótið að miða við ákveðna fjárhæð.
Dómari segi að miðað við að höfuðstóll lánsins hafi verið 25 milljónir, en greiddar hafi verið 4,4 milljónir, sé skuldin því sennilega ekki lægri en 20,5 milljónir kr.
Er Arion banka gert að greiða Agli ehf. 400.000 kr. í málskostnað.