Sigmundur Davíð gerir grein fyrir námsferli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann rekur námsferil sinn vegna umfjöllunar í blaðinu Fréttatímanum í dag.

Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram, að Sigmundur Davíð lauk námi frá Viðskipta- og hagfræðideild HÍ og stundaði síðan nám í hagfræði við háskóla í Moskvu og stjórnmálafræði í Kaupmannahöfn. Þá var hann 5 ár í Oxford við mastersnám í hagfræði og stjórnmálafræði og stundaði rannsóknir á hagrænum áhrifum skipulagsmála. Hann hefur ekki lokið doktorsprófi.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

Fréttatíminn fjallar í dag um að misræmis gæti um heiti menntunar minnar á mismunandi vefsíðum. Vegna þess er rétt að eftirfarandi komi fram:
 
Ég lauk námi frá Viðskipta- og hagfræðideild HÍ með fjölmiðlafræði sem aukagrein.
 
Að því loknu stundaði ég nám í hagfræði og hagþróun Austur-Evrópu við Plekhanov í Moskvu í hálft ár og var tvö ár í skiptinámi við stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla, einkum í greinum sem heyra undir alþjóðasamskipti og opinbera stjórnsýslu.
 
Við Oxford Háskóla lagði ég stund á tveggja ára þverfaglegt mastersnám, einkum í hagfræðideild og stjórnmálafræðideild. Ég framlengdi svo námið eins og algengt er í Bretlandi (og víðar) og stundaði rannsóknir á hagrænum áhrifum skipulagsmála.
 
Ég var í alls 5 ár í Oxford en hef ekki lokið doktorsgráðu enda hefur lítill tími gefist til fræðistarfa síðan ég hóf afskipti af stjórnmálum. Ég sé ekki fyrir mér að ná því á næstu árum, en hefði þó áhuga á að klára það einhvern tíma í framtíðinni. Á námsárum mínum vann ég einnig með námi, þar á meðal sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu.
 
Það er algengt vandamál þeirra sem leggja stund á þverfaglegt nám að erfitt getur reynst að finna á það einfalt og lýsandi íslenskt heiti. Á fjölmörgum síðum á netinu er að finna upplýsingar um mig. Í fæstum tilvikum hef ég haft nokkuð með framsetningu þeirra að gera. Umfjöllun Fréttatímans er ekki ný frétt því að sams konar „fréttir“ birtust þegar ég hóf afskipti af stjórnmálum.
 
Ekki verður betur séð en að Fréttatíminn reyni vísvitandi að gera það tortryggilegt að svar við fyrirspurn blaðamanns skuli ekki hafa borist um hæl. Fyrirspurn Fréttatímans barst við upphaf flokksþings Framsóknarmanna sem stóð fram á seinni part sunnudags. Strax að flokksþinginu loknu hélt ég af landi brott til viðræðna við norska þingmenn um stöðu Icesave málsins. Fundum með fulltrúum ESA og EFTA þurfti því miður að fresta þar sem flýta þurfti heimferðinni vegna vantrauststillögu Sjálfstæðismanna sem tekin var til umræðu á Alþingi á miðvikudag. Takmarkaður tími hefur því gefist undanfarna daga til þess að fara yfir menntunarferil á mismunandi vefsíðum.
 
Allt þetta mátti blaðamanni Fréttatímans vera ljóst, auk þess sem honum var bent á þetta í samtali við aðstoðarmann minn í fyrradag. Eins og kemur fram í Fréttatímanum var þar þakkað fyrir góða ábendingu um misræmið. Blaðamanni láðist hins vegar að geta þess að í sama samtali var skýrt tekið fram að misræmið yrði skýrt hið fyrsta og blaðamanni yrðu þá gefnar réttar upplýsingar. Hvergi kom fram í því samtali, né í fyrirspurn blaðamanns á tölvupósti, að hann hygðist birta frétt um málið í dag og því lægi á þessum upplýsingum.   
 
Því miður eru vinnubrögð blaðamanns Fréttatímans í þessu tilfelli ekki til þess fallin að vekja traust milli miðilsins og þeirra sem fjallað er um. „Frétt“ Fréttatímans og undirbúningur hennar er öll á þann veg að tilgangurinn virðist vera að koma höggi á mig fremur en að upplýsa lesendur. Það rifjast upp í þessu samhengi að ritstjóri Fréttatímans hefur í útvarpsviðtali lýst yfir mikilli andúð á mér. 
 
Öðrum fjölmiðlum má benda á að hafa beint samband við mig eða aðstoðarmann minn þegar um er að ræða álitamál af þessum toga, í stað þess að birta umfjöllun annarra miðla gagnrýnilaust.
 
Virðingarfyllst,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
formaður Framsóknarflokksins
 
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka