„Við munum ekki gera það án mjög náins samstarfs við bakland okkar um hver næstu skref verða. Við munum byrja á að hitta okkar fólk og gera það eftir helgina. Við höfum haft það vinnufyrirkomulag að við ráðum ráðum okkar og veit ekki nákvæmlega hvernig þeir hlutir munu koma til með að þróast,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar stéttarfélags, um hvort hann sjái fyrir sér að félagið leggi til verkfallsboðun eftir að slitnaði upp í kjaraviðræðum í gærkvöldi.
„Það er hins vegar nokkuð ljóst að menn munu ekki sitja auðum höndum. Fyrstu skref verða þá væntanlega að vísa deilu til ríkissáttasemjara í framhaldinu. Við erum að renna inn í páska og mér sýnist á öllu að menn verði ekki til mikilla viðræðna fyrir þá,“ segir Sigurður.
Það sé ekki aðeins Samtök atvinnulífsins sem beri ábyrgð á stöðu mála nú heldur beri ríkisstjórnin sannarlega sína ábyrgð einnig. Það endurspeglist meðal annars í því að sumir ráðherra telji það ekki mál aðila vinnumarkaðarins að hafa skoðun á því í hvaða framkvæmdir eigi að fara.
„Við höfum ekki lagt megináherslu á það heldur aðeins umfang þess sem ætti að fara í. Við erum að berjast við það um hver einustu mánaðamót að fólk sé að missa vinnuna. Okkar meginverkefni hlýtur að vera það að koma atvinnulífinu í gagn til að við getum komið á viðsnúningi hér,“ segir hann.