Engin áhrif á samstarf við AGS

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. Eggert Jóhannesson

Höfnun Icesave-samningsins í þjóðaratkvæðisgreiðslu á ekki að hafa nein efnisleg áhrif á aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við Ísland. Almennt hefur verið tekið vel í málflutning Íslendinga hjá sjóðnum segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem staddur er í Washington. á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í Washington með Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra.

„Við höfum verið að skýra þá aðstöðu að það sé ekkert sem hafi gerst í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu sem eigi að hafa efnisleg áhrif á áætlun okkar með sjóðnum. Við erum að standa að fullu við þá áætlun og okkur gengur mjög vel með hana. Það er mjög mikilvægt að þetta einstaka ágreiningsefni hafi ekki áhrif þar á og á ekki að þurfa þess,“ segir Árni Páll.

Almennt hafi þeim málflutningi verið tekið vel og menn hafi skilning á því. Um sé að ræða afmarkaðan ágreining um túlkun á ákveðinni tilskipun. Þegar fyrir liggi að greitt verði út úr búi Landsbankans á þessu ári þá sé alveg fáránlegt að líta svo á að málið hafi einhver áhrif hvort að Ísland hafi burði eða vilja til að standa við sínar skuldbindingar.

Þeir Steingrímur funduðu í gær m.a. með lánsmatsfyrirtækinu Standard og Poor's og segir Árni Páll þeir hafi bent á að þó að fyrirtækin hafi gert ráð fyrir lækkun á lánshæfimati í kjölfar höfnunar Icesave-samninganna hafi það mat byggst á því talið væri að það hefði neikvæð áhrif á aðgang að fjárfestingarfé og hina efnahagslegu umgjörð. 

„Nú síðustu viku höfum við ekki séð nein slík viðbrögð. Það er ekki að sjá að nei-ið hafi haft teljandi áhrif á mat á greiðsluhæfi Íslands í viðskiptum með skuldatryggingaálag Íslands og það er ekki heldur að sjá að þetta hafi áhrif á erlenda fjárfestingu. Þvert á móti kom bein erlend fjárfesting í íslenskan banka á mánudaginn var,“ segir hann.

Engin efnisleg rök séu því fyrir að fella lánshæfismatið. „Við vonum auðvitað að lánsmatsfyrirtækin séu sama sinnis. Hitt er auðvitað annað mál að það gæti haft erfið áhrif fyrir okkur ef matið væri lækkað en það er ekki þannig að það séu efnisleg rök fyrir að lækka það eins og staðan er í dag,“ segir Árni Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert