Gestastofan á Þorvaldseyri var setin til þrengsla í gær þegar vinir og velunnarar hjónanna Guðnýjar A. Valberg og Ólafs Eggertssonar samfögnuðu þeim með stofuna. Fluttar voru ræður og frumsamið ljóð, kveðnar rímur og frumsýnd kvikmynd.
Fólkið á Þorvaldseyri hefur breytt vélageymslu sem stendur við þjóðveginn neðan við bæinn og hyggst taka þar á móti ferðamönnum. Þau nutu aðstoðar fjölda fólks við verkið. Gaflinn prýðir risastór mynd af gosinu í Eyjafjallajökli og gefur forsmekkinn af því sem er að finna innan dyra.Gólfið er klætt svörtu steinteppi úr Kötlusandi og undir því er þjöppuð aska úr Eyjafjallajökli. Á veggjum eru spjaldasýningar sem segja bæði sögu eldgossins og ábúenda á Þorvaldseyri auk þess sem sagan er sett í stærra samhengi.
Þau á Þorvaldseyri fengu Svein M. Sveinsson, kvikmyndagerðarmann í +Film til að gera kvikmynd um líf fólksins á bænum og eldgosið í Eyjafjallajökli. Kvikmyndin verður sýnd ferðafólki í Gestastofunni og einnig til sölu þar.
Kvikmyndin var frumsýnd í gærkvöldi og hlaut verðskuldað lófatak að sýningu lokinni. Í henni kemur vel fram hvernig eldgosið sem hófst fyrir rúmu ári síðan, þann 14. apríl 2010, ógnaði tilveru og framtíð fólksins undir Eyjafjöllum. Það voru dimmir dagar og full ástæða til svartsýni.
Menn létu þó aldrei deigan síga og tókust á við hverja raun af þrautseigju og trúnaði við fósturjörðina og framtíðina. Gosinu lauk og nú er víst að heimsfrægð þess mun laða fjölda ferðamanna til landsins. Túnin undir Eyjafjöllum eru mörg orðin græn, akrar plægðir og sáning undirbúin.
Gestum var gætt á afurðum búsins, byggbrauði sem smurt var með repjuolíublönduðu smjöri, smákökum úr hveiti af bænum og repjuolíu. Auk þess var kynnt nýtt sykurlaust morgunkorn, Byggi, sem Arla í Borgarnesi framleiðir úr 100% íslensku byggi. Mjöl úr korni af bænum og aðrar afurðir verða seldar í gestastofunni auk minjagripa og fleira.