„Sáttasemjarinn mikli, Jóhanna Sigurðardóttir, ætti kannski að fá Ólínu Þorvarðardóttur til liðs við sig til að ræða við aðila vinnumarkaðarins,“ sagði Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi sjálfstæðismanna í morgun.
Bæði Ólöf og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndu hvernig Jóhanna hefði haldið á málum gagnvart aðilum vinnumarkaðarins. Bjarni sagði að Jóhanna hefði haft nægan tíma til að koma fram með tillögur í sjávarútvegsmálum, en engar tillögur hefðu enn séð dagsins ljós þó að tvö ár væru frá því að ríkisstjórnin lýsti því yfir að gerðar yrðu breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.
Bjarni sagði að það lægi fyrir að hægt væri að skapa sátt um hækkun á veiðigjaldi, en Jóhanna hefði ekki talið það nægjanlegt.