Næstu skref í kjaramálum, eftir að upp úr viðræðum ASÍ og SA slitnaði, verða að vísa deilunni til sáttasemjara. Beri tilraunir hans til sátta engan árangur gætu félagsmenn ASÍ tekið ákvörðun um að boða til verkfalls.
Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir meginástæðuna fyrir því að samkomulag hafi ekki tekist um skammtímasamning vera ákvæði um að niðurstaða fengist í sjávarútvegsmálum. „SA kröfðust þess að inn í samning yrði sett ákvæði um að við krefðumst af ríkisstjórn að hún féllist á kröfurétt LÍÚ. Skammtímasamningurinn og þriggja ára samningurinn liggja á borðinu í Karphúsinu og penni þar við hliðina á og við gætum skrifað undir núna ef við vildum en SA-menn verða að taka þeta ákvæði út um yfirlýsinguna gagnvart ríkisstjórninni. Það er ólöglegt og við getum ekki skrifað upp á það. Það kemur kjarasamningum ekki við.“
Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Samiðnar, segir næstu skref vera að láta helgina líða og kæla málið. „Þetta er með furðulegri vinnubrögðum sem við höfum orðið vitni að. Ég mun kalla samninganefndina saman, við tökum sameiginlega ákvörðun um framhaldið.“