„Forsætisráðherra hefur gert mikið úr því að við höfum látið þetta stranda á sjávarútvegsmálum. Það er rangt og forsætisráðherra veit betur. Það voru ýmis mál sem ekki náðist saman um á þessu stigi. Mjög þýðingarmikil mál stóðu út af borðinu sem snúa að orkuöflun, orkufrekum iðnaði og samgönguframkvæmdum. Því fer víðsfjarri að þetta hafi verið eingöngu út af sjávarútvegsmálum,“ segir Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins og stjórnarmaður í SA um ástæður þess að hlé varð á kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og ASÍ í gærkvöldi.
Eyða þurfi þó óvissu í sjávarútvegsmálum en forsætisráðherra hafi ekki viljað hreyfa sig í þessum málum.
Hann leggur þó áherslu á að viðræðum hafi ekki verið slitið og sér þyki eðlilegt að aðilar setjist aftur að borðinu eftir páska með það að markmiði að gera þriggja ára samning. Hann telji að SA og ASÍ muni ná saman um samning þó að ýmis mál séu enn óútkljáð enda hafi samstarf þeirra verið faglegt og gott.
„Ríkisstjórnin og þá sérstaklega forsætisráðherra þarf að nota næstu daga til að skoða sinn hug ef það er á annað borð raunverulegur vilji til að koma samfélaginu úr sporunum,“ segir Helgi.