Hollendingar og Bretar leggja ekki stein í götu okkar

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.

„Þetta hefur gengið mjög vel. Við höfum haldið áfram að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og viðbrögðin sem við sjáum núna frá Hollendingum og Bretum eru þess eðlis að við gerum ekki ráð fyrir að þeir leggi stein í götu okkar í framgangi mála hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er náttúrulega mikils virði fyrir okkur,“ segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra en hann er staddur í Washington þar sem hann og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafa í dag fundað með fulltrúum hollenskra stjórnvalda og lánshæfismatsfyrirtækinu Moody's.

Nú liggi beint við að koma á framfæri ítarlegum upplýsingum til Breta og Hollendinga um hvernig bú Landbankans muni geta staðið undir útgreiðslum. Þau mál skýrist núna frá mánuði til mánaðar.

Þegar hæstaréttardómar liggi fyrir um forgangsröðun innistæðna í Landsbankanum þá verði stærsta óvissuþættinum eytt. Það ætti að verða fljótlega núna á seinni helmingi ársins.

Þá ætti líka að skýrast í ljósi nýrra upplýsinga frá slitastjórninni með endurheimtuhorfurnar. Þær verði aldrei minni en 90% og mögulega meiri. Endurgreiðslur munu geta hafist síðar á þessu ári.

„Ég held að það skipti miklu máli að gefa Bretum og Hollendingum eins miklar upplýsingar um þessa þætti og mögulegt er. Svo skulum við bara sjá hvað setur,“ segir hann.

Á fundinum með Moody's hafi fulltrúar Íslands farið yfir það að efnislega hefði ekkert gerst sem réttlætti lækkun á lánshæfismati. Engin teikn væru á lofti um að höfnun Icesave-samningsins í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði valdið slíkum efnahagslegum óróa að það réttlætti lækkun á matinu.

„Við auðvitað bíðum ákvörðunar frá lánshæfismatsfyrirtækjunum. Þau gefa nú lítið upp í framhaldi af fundi. Það er auðvitað þeirra síðan að meta staðreyndir mála,“ segir Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert