Samninganefndir Starfsgreinasambandsins (SGS) og Samtaka atvinnulífsins koma saman til sáttafundar hjá ríkissáttasemjara kl. 14 í dag. Þetta er fyrsti fundurinn frá því viðræður ASÍ og SA runnu út í sandinn sl. föstudagskvöld.
Ekki er búist við neinum stórtíðindum á þessum fundi. Kjaradeilu SA og SGS var fyrr í vetur vísað til sáttameðferðar. Var ákveðið á föstudagskvöld að boða til sáttafundarins í dag þó mikil óvissa sé um framhald kjaraviðræðnanna á almenna vinnumarkaðinum.
Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, segir að farið verði yfir málin en hann á ekki von á löngum fundi.
Forystumenn í launþegahreyfingunni eru mjög ósáttir við framgöngu SA á föstudagskvöldið og segja að samningar hafi verið svo gott sem í höfn þegar SA fór fram á að viðsemjendur stæðu saman að yfirlýsingu með rökstuðningi fyrir samningunum.
„Það kom okkur verulega á óvart að þeir kæmu með þessa yfirlýsingu og að hún þyrfti að vera inn í skammtímasamningnum. Það kom okkur alveg í opna skjöldu að setja ætti sem skilyrði að við yrðum með í einhverri ádeilu. Við höfum oft skammað ríkisstjórnina en sjáum enga ástæðu til að skrifa það inn í haus á samningum. Þetta eru ekki rétt vinnubrögð,“ segir Björn.
Nú er málið í höndum aðildarfélaga og landssambanda sem fara hvert um sig yfir það í dag og á næstu dögum. Reiknað er með að samninganefnd ASÍ muni einnig funda á morgun um þá stöðu sem upp er komin.
Forystumenn innan ASÍ sem rætt var við í morgun eiga ekki von á að eiginlegar kjaraviðræður fari í gang á nýjan leik fyrr en eftir páska. Munu einstök landssambönd og félög m.a. ræða hvort næsta skref sé að vísa kjaradeilum til sáttasemjara.