Samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík, Börnin okkar, harma ákvörðun borgarráðs í dag um sameiningar á leikskólum, forgangsröðun meirihlutans í borginni og hvernig málefni leikskólabarna séu „fótum troðin“.
„Bakland leikskólanna, sem eru í sameiningarferli, er sett í uppnám með þessari stjórnsýslubreytingu á sama tíma og 24 leikskólar leggja af stað í sameiningar," segir m.a. í yfirlýsingu frá Börnunum okkar.
Samtökin segja lítinn skilning á því að sameiningar stofnana séu erfitt breytingaferli sem krefjist mikils faglegs stuðnings leikskólasviðs þar sem aðeins 15% líkur eru á að sameiningar stofnana heppnist, samkvæmt skýrslu fjármálaráðuneytisins frá 2010.
„Augljóslega eru til nægir peningar í borginni því á sama tíma og því er haldið fram að skera þurfi niður í menntakerfinu þá er verið að samþykkja mjög fjárfrekar nýframkvæmdir, eins og sjópott í Laugardalslaug og gufubað í Nauthólsvík og fleiri framkvæmdir. Það er því augljóst að til er fjármagn fyrir því sem sett er í forgang. Börnin okkar krefjast þess að málefni leikskólabarna verði sett í forgang nú þegar," segir ennfremur í yfirlýsingunni.