Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar segja, að tillögur um sameiningu og samrekstur skóla og frístundaheimila séu vandaðar og eðlileg og rétt viðbrögð við þröngum fjárhag borgarinnar og barnasprengju í Reykjavík.
Þetta kemur fram í bókun, sem borgarfulltrúarnir lögðu fram á fundi borgarráðs í dag þar sem tillögurnar voru samþykktar. Fjallað verður um tillögurnar á fundi borgarstjórnar á morgun.
Í bókuninni segir, að Besti flokkurinn og Samfylkingin telji aldrei nógu oft áréttað að á þriðja ári í hagræðingu sé afar erfitt að skerða meira í skólastarfinu sjálfu með flötum niðurskurði. Því hafi verið farið í viðamikla greiningu á öllum möguleikum til hagræðingar með endurskipulagningu í stjórnun og betri nýtingu húsnæðis.
„Breytingartillögur í skóla- og frístundastarfi taka mið af framkomnum ábendingum foreldra, starfsfólks og fagaðila þó ekki hafi verið unnt að koma til móts við allar óskir. Viðamikið undirbúningsferli hefur átt sér stað með þátttöku fjölmargra, ljóst var við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 að endurskipulagning í skóla- og frístundastarfi væri nauðsyn, nú þegar sveitarfélög hagræða þriðja árið í röð. Tillögurnar eru vandaðar og eru eðlileg og rétt viðbrögð við þröngum fjárhag borgarinnar og barnasprengju í Reykjavík," segir m.a. í bókuninni.
Þar segir að það sé forgangsmál borgarstjórnar, að standa vörð um skóla- og frístundastarf í borginni og að ólíkar fagstéttir komi saman að menntun og þjónustu við börn og unglinga í Reykjavík. Áfram verði stjórnsýsla borgarinnar skoðuð með fækkun sviða og skrifstofa að leiðarljósi og mikilvægt sé að þróa þjónustu borgarinnar áfram í átt til skilvirkni og bestu hugsanlegu meðferð fjármuna.