Meirihluti borgarráðs samþykkti í morgun tillögu borgarstjóra um sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Tillögurnar verða einnig til umræðu og afgreiðslu á fundi borgarstjórnar á morgun.
Að sögn Sóleyjar Tómasdóttur, borgarfulltrúa VG, var á borgarráðsfundinum einnig samþykkt tilllaga um að allt starfsfólk tómstundamála yrði fært af íþrótta- og tómstundasviði yfir á menntasvið.
Sóley lét bóka, að meirihluti Besta flokks og Samfylkingar hafi ítrekað gengið fram af borgarbúum með vinnubrögðum sínum og málflutningi í tengslum við sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Samráð hafi ekki verið viðhaft, ekki hefur verið hlustað á varnaðaroð eða tillögur fagfólks og upplýsingaflæði hefur verið allt of lítið.
Segir Sóley, að Vinstri græn hafi ítrekað lagt til að hætt verði við sameiningarnar. Hagræðing í rekstri borgarinnar verði að hefjast á toppnum og því ættu miðlægar stjórnkerfisbreytingar að vera fyrsta skrefið. Því næst verði að skoða sameiningar- og hagræðingarmöguleika á þeim sviðum þar sem stjórnunarspönnin sé mest og starfsemin á efnislegri nótum, en bíða í lengstu lög með að raska starfi í þágu uppeldis, menntunar og velferðar. Þessum tillögum hafi ítrekað verið hafnað.
„Og nú á að ganga enn lengra. Með vikufyrirvara ætlar borgarstjóri að þvinga í gegn tilflutningi á 800 starfsmönnum borgarinnar milli sviða, án þess að tillagan hafi verið rædd í fagráðum eða stjórnkerfisnefnd, við starfsfólk eða fagfólk. Þessi vinnubrögð eru enn verri en þau sem áður hafa sést og til marks um fullkomna vanvirðingu fyrir stjórnkerfi borgarinnar, starfsfólki og því starfi sem unnið er," segir m.a. í bókun Sóleyjar.
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins segir að hagræðing í kerfinu sé nauðsynleg og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ítrekað bent á að á sama tíma og meirihlutinn skeri niður í grunnþjónustu við borgarbúa, hækkar skatta og virðist fyrirmunað að ná nokkurri sátt um mikilvæga þætti í starfsemi borgarinnar, sé ekki gengið af festu og yfirsýn til þess að lækka kostnað við kerfið sjálft.
Það sé hinsvegar
óviðunandi, að svo stórtækar breytingar séu gerðar á kerfinu án þess
að þær séu ræddar í fagráðum og stjórnkerfisnefnd, sem hafi ekki boðað
til fundar í tvo mánuði.
„Niðurstaðan er sú að merihlutinn mun
keyra í gegn illa unnar og vanhugsaðar tillögur í andstöðu við
starfsfólk, foreldra og fagaðila. Í þessa vinnu skortir alla
framtíðarsýn og virðingu fyrir borgarbúum sem mun bitna harðast á
börnunum í borginni," segir Sjálfstæðisflokkurinn.