Kjarasamningar eru í burðarliðnum fyrir starfsmenn hjá Elkem á Grundartanga. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, á von á að hægt verði að undirrita samninga á morgun.
Í nýrri frétt á vefsíðu verkalýðsfélagsins segir að rétt í þessu hafi lokið samningafundi hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Elkem Ísland „og það er skemmst frá því að segja að það liggja fyrir drög að kjarasamningn sem væntanlega verður undirritaður á morgun,“ segir í fréttinni.
„Hér er um þriggja ára samning að ræða og mun formaður væntanlega kynna samninginn á miðvikudaginn fyrir starfsmönnum ef endanleg niðurstaða fæst á morgun. Formaður er þokkalega sáttur við þau drög sem nú liggja fyrir enda skiptir gríðarlega miklu máli að íslenskir launþegar fari að fá launahækkanir enda eru nú liðinir upp undir 6 mánuðir frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði rann út. En kjarasamningur Elkem rann út 1. janúar. Það liggur fyrir að í þessum samningsdrögum muni vera um afturvirkni samningsins að ræða þannig að starfsmenn hafa ekki orðið af launahækkunum fyrir það tímabil frá því að samningurinn rann út.“
Vilhjálmur segist í samtali við mbl.is ekki geta á þessu stigi greint frá því hvaða kjarabætur er kveðið á um í samningsdrögunum. „Ég er þokkalega sáttur með þennan árangur og að ná að ljúka þessu. Það skiptir líka gríðarlega miklu máli að skapa stöðugleika á svæðinu og tryggja rekstrarskilyrði fyrirtækisins,“ segir hann.
Samninganefndirnar hittast á nýjanleik kl. 10 á morgun og má þá reikna með að kjarasamningurinn verði undirritaður ef allt gengur eftir, að sögn Vilhjálms.
Verkalýðsfélag Akraness semur einnig fyrir hönd starfsmanna í álveri Norðuráls og hjá Klafa, sem er í eigu Elkem og Norðuráls. Viðræður eru í gangi um endurnýjun samninga þeirra og var fundað um þau mál í morgun.