Smokkaherferð af stað

Smokkaherferðin var sett af stað í kvöld með athöfn á …
Smokkaherferðin var sett af stað í kvöld með athöfn á Borgarbókasafninu. mbl.is/Ómar

Félagasamtökin Smokkur-sjálfsögð skynsemi, Ástráður, félag læknanema, og Íslenska auglýsingastofan settu af stað í kvöld nýja smokkaherferð. Um er að ræða endurgerð á sambærilegri herferð frá árinu 1986. Yfir 100 þjóðþekktir Íslendingar leggja átakinu lið og líkt og fyrir 25 árum munu veggmyndir prýða alla skóla, heilsugæslustöðvar og íþróttamiðstöðvar landsins.

Unnsteinn Manúel í hljómsveitinni Retro Stefson tók að sér að endurgera lag Valgeirs Guðjónssonar, Vopn og verjur, sem Friðrik Dór syngur. Lagið var frumflutt í kvöld við opnun átaksins í Borgarbókasafninu að viðstöddu fjölmenni.

„Þrátt fyrir aukna þekkingu landsmanna á kynsjúkdómum er enn gríðarleg þörf á að minna fólk á að stunda öruggt kynlíf. Yfir 2,200 manns greindust með klamydíu á síðasta ári og 24 greindust með HIV smit á síðasta ári, en aldrei hafa jafn margir greinst með HIV smit. Það er því enn mikil þörf á að minna á mikilvægi þess að stunda öruggt kynlíf," segir m.a. í tilkynningu frá aðstandendum herferðarinnar.

Þar segir ennfremur að kynsjúkdómar geti haft alvarlegar afleiðingar á heilsufar fólks, bæði líkamlega og tilfinningalega, sérstaklega ef þeir eru ekki greindir í tæka tíð. Á Íslandi greinast yfir 2.000 manns með kynsjúkdóma ár hvert, en talið er að margfalt fleiri smitist á hverju ári.

Reykjavíkurborg, Landlæknisembættið, sóttvarnarlæknir, VÍS og FKB styrkja verkefnið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert