Þjóðaratkvæði um kvótann

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í morgunþætti Bylgjunnar, að hann teldi  tímabært að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið.

„Það er ljóst hvað almenningur í landinu vill. Hann vill gerbreytingar á kvótakerfinu og mér sýnist útgerðarmenn vera að setja þetta í þann farveg að málið verði tæplega leyst nema í þjóðaratkvæðagreiðslu," sagði Össur.

Össur gagnrýndi Landssamband íslenskra útvegsmanna harðlega og sagði að það hefði í raun krafist þess, að vald Alþingis til að breyta lögum um auðlindirnar yrði tekið af þinginu og flutt yfir á samningaborð kjarasamninga þar sem útvegsmenn gætu valsað með það.

„Þetta gengur ekki upp. Ég segi það nú, að þessi átök, sem hafa verið gríðarleg síðustu daga, hafa þétt ríkisstjórnina og hún er mjög sterk og einbeitt í þeim ásetningi að hún ætlar ekki að gefa almannahagsmuni eftir fyrir sérhagsmuni sægreifanna," sagði Össur.

Hann sagði að búið hefði verið að semja um umtalsverðar kauphækkanir handa  öllum Íslendingum á vinnumarkaði og LÍÚ hefði sett það upp í loft með óbilgjörnum kröfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert