Um páskana verða tekin í notkun ný snyrtihús með 18 salernum á Hakinu ofan Almannagjár á Þingvöllum. Gjaldfrjálst verður í þau um páskana en að þeim reynslutíma liðnum verður tekið gjald; 200 krónur fyrir fullorðna og frítt fyrir 17 ára og yngri.
Í bréfi Ólafs Arnar Haraldssonar, þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum, til ferðaþjónustuaðila kemur m.a. fram að þrjú gjaldhlið hafi verið sett upp og svipi þeim til þess sem þekkist í sundlaugum og víðar. Eitt hliðanna er ætlað fötluðum. Sérstakur starfsmaður hefur umsjón með snyrtihúsunum og gjaldhliðinu og mun greiða götu ferðamanna. Eldri salernin við fræðslumiðstöðina verða lokuð.
„Eftir því sem reynsla kemst á þetta fyrirkomulag verður hægt að bæta þjónustu við ferðamenn og óskar þjóðgarðurinn eftir góðu samstarfi og ábendingum frá ferðaþjónustuaðilum. Hægt verður að fá skiptimynt, þ.e. 100 krónu peninga á staðnum og e.t.v. kjósa einhverjar ferðaskrifstofur að láta leiðsögumenn eða bílstjóra hafa skiptimynt fyrir farþega sína. Þá mun reynslan sýna hvort hægt er að hleypa stórum hópum hratt í gegnum gjaldhliðin en starfsmaður getur með sérstökum búnaði látið hliðin fríhjóla án gjalds. Síðan greiðir ferðaskrifstofan þjóðgarðinum í einu lagi fyrir þann fjölda sem fór um hliðin," segir m.a. í bréfi þjóðgarðsvarðar.