Samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun er kostnaður vegna dýpkunar Landeyjahafnar nokkurn veginn á því róli sem gert hafði verið ráð fyrir á þessu ári þrátt fyrir þá erfiðleika sem glímt hefur verið við í þeim efnum frá því síðastliðið sumar.
Ástæða þess mun vera sú að gerðar voru vel rúmar kostnaðaráætlanir vegna dýpkunar hafnarinnar áður en hún var tekin í notkun.
Frá því um miðjan janúar síðastliðinn hefur Herjólfur ekki getað siglt inn í Landeyjahöfn þar sem hún er of grunn og þess í stað hefur skipið siglt til Þorlákshafnar. Ítrekað hefur verið gert ráð fyrir því að ferjan gæti siglt inn á höfnina síðan þá en jafnóðum hefur þurft að fresta því. Vonir standa nú til þess að hægt verði að opna Landeyjahöfn fyrir 1. maí nk. samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun en alls óvíst er þó hvort þær áætlanir muni standast.