Húmorsleysi og neikvæðni

Frá fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag.
Frá fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag. mbl.is/Sigurgeir

Jón Gnarr, borgarstjóri, sagði á fundi borgarstjórnar í dag, að hann hefði unnið á mörgum vinnustöðum, þar á meðal á geðdeild, og aldrei hefði hann kynnst eins erfiðum samskiptum og í borgarstjórn Reykjavíkur.

Sagði Jón, að mjög erfitt væri að vekja máls á þessum samskiptum án þess að styggja einhvern eða særa. Hann sagðist hins vegar biðja um að borgarfulltrúar  reyndu að bæta samskipti þeirra á milli. Það væri til dæmis frekar neikvætt, að koma ítrekað fram og tala um hvað hann og Besti flokkurinn og allir í meirihlutanum væru glötuð og misheppnuð.

Jón sagðist ekkert hafa hugmyndafræðilega á móti stjórnmálaflokkum, hvorki Sjálfstæðisflokknum né Vinstri grænum. Hann sagðist hins vegar gera Sjálfstæðisflokkinn að umræðuefni vegna þess að hann væri mjög kraftmikill og sterkur flokkur en þar hefði átt sér stað misbeiting á valdi. Og margt í umræðunni hefði verið sett fram til að afvegaleiða hana. 

„Ég bið allt gott fólk í Sjálfstæðisflokknum að leggja sitt að mörkum til að stoppa þessa neikvæðni og vitleysu vegna þess að við töpum öll á þessu," sagði Jón.

Borgarstjóri sagði, að Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, hefði í ræðu sinni í dag gert að umtalsefni frestun á skoðanakönnun meðal starfsfólks Reykjavíkurborgar.

„Mér finnst þetta ekkert háalvarlegt mál sem þarf að taka fyrir í borgarstjórn," sagði Jón og spurði hvort gjaldskrárhækkanir Orkuveitu Reykjavíkur væru ekki miklu alvarlegra mál.

Vísaði hann í viðtal, sem Viðskiptablaðið birti við Hjörleif Kvaran, fyrrverandi forstjóra Orkuveitunnar, sem sagði, að hann og fjármálastjóri fyrirtækisins hefðu ítrekað greint stjórn OR frá því að það þyrfti að hækka gjaldskrána mikið.

„Þetta er eitthvað sem skiptir máli en ekki hvort starfsmannakönnun sé frestað um þrjá eða fjóra mánuði," sagði Jón og bætti við, að slæm staða Orkuveitunnar, 200 milljarða skuldir, væri að hluta ástæðan fyrir því að borgarstjórn stæði í þeim sporum að þurfa að skera niður.

Jón sagði að vegna umræðu um að konum verði sagt upp hjá Reykjavíkurborg, þá væri ekki skemmtilegt að standa fyrir uppsögnum, hvorki á á konum né körlum. Sagði Jón að 70% starfsmanna Reykjavíkur væru konur og 90% starfsmanna leikskóla væru konur og því væri erfitt að sneiða fram hjá konum við uppsagnir. Einnig tók hann fram að öllum yrðu boðin önnur störf hjá borginni.

Hágrátandi þýskir herforingjar

Jón sagði, að í borgarstjórn ætti að skjóta niður alla gleði og húmor. Hann sagðist hafa komið á fund hjá kaupmönnum nýlega til að tala í þá kjark og auka þeim bjartsýni fyrir sumarið og nefnt sem dæmi, að sniðugt væri að búa til helli Grýlu í Húsdýragarðinum og fá feitasta kött í Reykjavík til að vera þar yfir jólin.

„Það var tekið fyrir í borgarstjórn og mér var ráðlagt að hugsa ekki um svona hluti," sagði Jón.

Þá sagði hann, að ætla mætti, að einhverstaðar væru hágrátandi þýskir hershöfðingjar, sem langaði svo að hitta sig og væru niðurbrotnir vegna þess að hann vildi ekki hitta þá.

Hann sagði að þessi herskip hefðu í vissum fjölmiðlum verið kölluð varðskip, en hann vissi vel að þýski sjóherinn hefði tekið þátt í innrásinni í Írak og það hefði verið tekið fyrir í þýska þinginu.

Stórmerkilegt væri hvað heyrðist lítið um þessi mál frá Vinstri grænum og þeir sæju ekki ástæðu til að taka þessi mál fyrir í borgarstjórninni. „Eru Vinstri grænir kannski horfnir frá friðarstefnu sinni eftir innrásina í Líbíu?" spurði Jón. 

Honum fer fram, stráknum

„Honum fer fram, stráknum," sagði Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG og uppskar ávítur fundarstjóra. „Meira að segja búinn að læra smjörklípur."

Sagði Sóley að VG hefðu ekki fallið frá friðarstefnu sinni og hún hefði ekki gagnrýnt borgarstjóra fyrir herskipamálið. „Mér fannst það bara gott hjá honum," sagði Sóley.

Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði, að Jón hefði afhjúpað algert þekkingarleysi sitt með því að lesa upp úr viðtali úr Viðskiptablaðinu. Staðreyndin væri sú, að um mitt síðasta kjörtímabil hefði verið samþykkt samhljóða í borgarstjórn aðgerðaáætlun þar sem allar gjaldskrár voru frystar. Hefði forstjóri Orkuveitunnar átt að hagræða fyrir sömu upphæð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert