EES-samningurinn er sem klæðaskerasaumaður utan um þá efnahagslegu þörf Íslands að taka þátt í samstarfi Evrópuríkja á sviði viðskipta en viðhalda um leið formlegu fullveldi sem verið hefur grundvallaráhersla í íslenskum stjórnmálum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem kom út í Noregi í vikunni um áhrif EES-samningsins á íslenskt samfélag. Norska ríkisstjórnin fól landsliði fræðimanna á sviði Evrópufræða að rannsaka tengsl Noregs við Evrópusambandið.
Rannsóknarhópurinn fékk Eirík Bergmann, dósent og forstöðumann Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst, til að vinna skýrslu um áhrifin á Ísland. Skýrslan er nú komin út undir heitinu: Iceland and the EEA, 1994-2011.
Í skýrslunni kemur einnig fram, að í ljósi yfirvofandi málshöfðunar ESA fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave-deilunnar sé athyglisvert að Ísland hafi getað staðist langvarandi þrýsting Noregs og framkvæmdastjórnar ESB um að veita EFTA-dómstólnum heimild til að dæma brotleg ríki til fésekta með álíka hætti og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi gagnvart ESB-ríkjum.