Öllum undir 25 ára tryggð skólavist

Öllum umsækjendum um nám í framhaldsskóla að 25 ára aldri sem uppfylla skilyrði verður tryggð skólavist í haust.

Að sögn menntamálaráðuneytisins verða einnig sköpuð ný námstækifæri fyrir allt að 1000 atvinnuleitendur haustið 2011 og næstu tvö skólaár þar á eftir.

Ríkisstjórnin samþykkti tillögu velferðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherrra um þetta á fundi sínum í dag. Áætluð útgjöld ríkissjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna átaksins nema tæpum 7 milljörðum króna á árunum 2011-2014.

Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu segir, að átakið byggist á stefnumörkun sóknaráætlunarinnar Ísland 20/20. Undirbúningur verkefnisins hafi verið í höndum ráðherranefndar og samráðshóps um vinnumarkaðsmál sem settur var á fót í aðdraganda kjarasamningsviðræðna en stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins tryggja sameiginlega fjármögnun verkefnisins. Í samráðshópnum áttu sæti, auk fulltrúa ráðuneytanna, fulltrúar allra þingflokka, aðila vinnumarkaðarins og námsmannahreyfinganna.

Framhaldsskólum verður gert kleift strax í haust að taka inn umsækjendur yngri en 25 ára sem uppfylla skilyrði og einnig verður tryggt að þeim sem hafa lokið raunfærnimati vorið 2011 gefist kostur á námi á framhaldsskólastigi næsta haust. Þeim sem eru eldri en 25 ára verður gefinn kostur á framhaldsfræðslu í auknum mæli.

Sérstök áhersla er lögð á aukin námstækifæri fyrir atvinnuleitendur. Haustið 2011 verður allt að 1000 atvinnuleitendum tryggð námstækifæri í framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og í framhaldsfræðslu og einnig skólaárin 2012 og 2013.

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs samþykkti á fundi í morgun að bera kostnað vegna þessa til næstu áramóta. Gert er ráð fyrir að útgjöld sjóðsins aukist um 400 milljónir króna vegna þessa árið 2011 en að útgjöld ríkissjóðs aukist um 800 milljónir króna á ársgrundvelli frá áramótum.

Atvinnuleitendum sem fara í lánshæft nám og uppfylla önnur skilyrði mun standa til boða fyrirgreiðsla hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) en unnið er að tillögum um hvernig best verði hagað framfærslustuðningi við þá sem ekki njóta fyrirgreiðslu LÍN. Áhersla verður lögð á að samræma framfærsluviðmið vegna námslána og annarra bóta en gert er ráð fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður beri framfærslukostnað þeirra sem ekki njóta námslána.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun vinna að leiðum sem auðvelda nemendum að fá metna áfanga úr framhaldsfræðslu og raunfærni til eininga í framhaldsskólum.

Stofnaður verður þróunarsjóður til að efla starfstengt nám á framhalds- og háskólastigi og þróa styttri námsbrautir. Í hann verða lagðar 300 milljónir króna á ári næstu þrjú árin.

Vinnustaðanámssjóði verða tryggðar samtals 450 milljónir króna á fjárlögum 2012-2014.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka