„Ég held að margir sjálfstæðismenn séu gríðarlega reiðir og svekktir út í mig," sagði Jón Gnarr, borgarstjóri, á borgarstjórnarfundi í dag.
Þetta kom fram í andsvari Jóns við ræðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins. Sagði Jón það rangt, að hann vildi ekki eiga samstarf við minnihlutann.
Hanna Birna sagðist ekki hafa í ræðu sinni verið að ræða samstarf sitt við borgarstjóra heldur samstarf og samráð meirihlutans í borgarstjórn við fólkið í borginni.
Þá sagði Hanna Birna, að það væru ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn, sem væri óánægður með borgarstjóra heldur væru margir borgarbúar ósáttir við hann. Sagðist Hanna Birna viðurkenna, að hún hefði ekki mikla trú á Jóni Gnarr sem borgarstjóra og stjórnmálamanni.
Jón endurtók það sem hann sagði á borgarstjórnarfundi nýlega, að á
markvissan hátt hefði verið reynt að skemma þá vinnu, sem meirihlutinn hefði unnið við tillögur um sameiningu í skólakerfi borgarinnar. Sagði Jón, að hinn svokallaði
minnihluti væri valdamikið og úrræðagott afl sem hefði beitt sér með
áhrifamiklum hætti til að fremja pólitísk skemmdarverk eins og kæmi
fram í málgagni Sjálfstæðisflokksins, Morgunblaðinu.