„Stjórnsýslulegt níðingsverk“

Úr borgarstjórnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.
Úr borgarstjórnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. mbl.is

„Með samþykkt þessara sameiningartillagna í borgarstjórn í dag er Samfylkingin og Besti flokkurinn að fremja stjórnsýslulegt níðingsverk sem mun fyrst og síðast koma niður á líðan og velferð barnanna í borginni," segir í tilkynningu frá regnhlífarsamtökunum Börn.is.

Borgarstjórn samþykkti í kvöld sameiningartillögur á leik- og grunnskólum, og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar og tillögu um að leita leiða til frekari niðurskurðar í menntakerfinu árið 2012. Einnig var samþykkt sameining leikskólasviðs, menntasviðs og tómstundamála ÍTR.

Börn.is segja tillögurnar byggja á „hæpnum, illa ígrunduðum og illa rökstuddum forsendum sem munu stefna öllu skóla og tómstundastarfi í borginni í uppnám."

Furða samtökin sig á því að meirihluti borgarstjórnar hafi farið gegn öllum helstu hagsmunaaðilum og virði að vettugi álit foreldra og fagaðila í þessu máli. Þá benda samtökin á að á örfáum dögum skrifuðu um 12 þúsund manns undir mótmæli gegn þessum sameiningar- og hagræðingartillögum og afhentu borgarstjóra undirskriftirnar og lýstu yfir vilja til viðræðna en borgarstjóri hafi greinilega ekki heyrt það.

„Þrátt fyrir þessa ömurlegu niðurstöðu í dag munu regnhlífarsamtökin Börn.is halda baráttunni áfram af fullum krafti og eldmóði. Hægt er að fylgjast með baráttunni á börn.is og á Facebooksíðu samtakanna," segir í tilkynningu samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert