Björgunarsveitin Húnar á Hvammstanga aðstoðar nú ferðalanga á Holtavörðuheiði en þar er mikil hálka og mjög hvasst. Sex bílar hafa lent utan vegar og hefur einn bíll oltið. Ekki er vitað um slys á fólki.
Björgunarsveitin Heiðar frá Varmalandi er einnig á leið á heiðina sunnan frá til aðstoðar.
Slysavarnafélagið Landsbjörg segir í tilkynningu að vindur sé eitthvað að ganga niður. Skyggni á heiðinni sé ágætt. Hins vegar sé mjög hált.
Lögreglumenn frá Borgarnesi og Blönduósi eru einnig á vettvangi.
Búið er að opna Holtavörðuheiði. Að sögn lögreglu þá geta ökumenn nú ekið í norður og suður. Hún bendir á að mikil hálka sé á veginum og að umferð hafi gengið hægt.